Á tíunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um eld í vélarrúmi rækjutogarans Sóleyjar Sigurjóns GK. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang ásamt varðskipinu Tý.
Togarinn Múlaberg SI var við rækjuveiðar í 25 sjómílna fjarlægð. Finnur Bernharð Sigurbjörnsson, skipstjóri á Múlabergi, segir að strax hafi veri híft og siglt á vettvang þegar neyðarkall barst frá áhöfn Sóleyjar.
Tilkynnt hafi verið um mikinn reyk í vélarrúmi. Rafmagnslaust var um borð í Sóleyju og vél skipsins ekki gangfær. Átta manna áhöfn Sóleyjar var í flotgöllum í brú skipsins.
„Við náðum að koma taug á milli skipanna í annarri tilraun, það var svolítil hreyfing á skipunum,“ segir Finnur.
Símasambandslaust hefur verið við Sóleyju vegna rafmagnsleysis um borð.
„Það brunnu þrjár rafmagnstöflur og eitthvað meira í vélarrúminu. En það er búið að koma vararafstöð frá varðskipi um borð.“
Ganga menn þá út frá því að það hafi kviknað í út frá rafmagni?
„Já, það eru allar líkur á því að það hafi orðið einhver sprenging í rafmagnstöflunni. Þetta lítur illa út skildist mér á vélstjóranum þeirra.“

Vélstjórinn nýrfarinn þegar eldur kviknaði
Finnur segir að áhöfnin sé ómeidd. Vélstjórinn hafi verið nýfarinn úr vélarrúmi þegar eldurinn kviknaði.„Þyrlan tók tvo menn til að létta á hjá þeim, þetta er enginn aðbúnaður um borð í skipi þegar allt er dautt - rafmagnslaust, ljóslaust og allslaust,“ segir Finnur skipstjóri á Múlabergi.
Hann segir að ferðin sækist hægt og býst við að koma til hafnar á Akureyri eftir um sólarhring.
Þetta er í þriðja skipti sem eldur kemur upp í togaranum Sóleyju Sigurjóns sem er í eigu Nesfisks. Eldur kom upp í vélarrúmi skipsins 2015 og 2008.