Erlent

Nauseda verður næsti forseti Litháen

Atli Ísleifsson skrifar
Hagfræðingurinn Gitanas Nausėda hafði betur gegn fyrrverandi fjármálaráðherranum Ingrida Simonyte.
Hagfræðingurinn Gitanas Nausėda hafði betur gegn fyrrverandi fjármálaráðherranum Ingrida Simonyte. EPA
Hagfræðingurinn Gitanas Nauseda hefur verið kjörinn nýr forseti Litháen en síðari umferð forsetakosninganna þar í landi fóru fram í dag. Hann hafði betur gegn fyrrverandi fjármálaráðherranum Ingrida Simonyte.

Nauseda er talinn vera hægra megin við miðju og ávarpaði hann stuðningsmenn sína fyrr í dag þar sem hann lýsti yfir sigri. „Ég var óháði frambjóðandinn og það var mitt hlutverk að sameina litháísku þjóðina, sama hvar þeir eiga heima – í fámennari héröðum, þorpum, smærri borgum eða stórborgum,” sagði Nauseda.

Hinn 55 ára Nauseda var með 72 prósent atkvæða þegar búið var að telja um 42 prósent atkvæða. Hann hefur heitið því að halda áfram á þeirri braut sem forsetinn fráfarandi Dalia Grybauskaites hefur fetað síðustu tvö kjörtímabil.

Grybauskaite hefur verið einn harðasti og háværasti andstæðingur rússneskra stjórnvalda í álfunni.

Fyrsta mál á dagskrá nýs forseta verður að fást við þá stöðu sem komin er upp í stjórn landsins, en forsætisráðherrann Saulius Skvernelis, sem bauð sig fram og tapaði í fyrri umferð forsetakosninganna, hefur greint frá því að hann láti af sínu embætti þegar nýr forseti sver embættiseið.

Forseti Litháen getur beitt neitunarvaldi á lög sem þingið hefur samþykkt. Þá hefur hann töluverð áhrif þegar kemur að utanríkis- og varnarmálum, sem og tilnefning forsætisráðherra og dómara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×