Innlent

Eldur í timburhúsi á Ísafirði: „Ég var mest fegin að hundurinn í búrinu komst heill frá“

Eiður Þór Árnason skrifar
Eldur kviknaði í timburhúsi á Ísafirði í kvöld en betur fór en á horfðist.

Berglín Mist Kristinsdóttir, íbúi á Ísafirði, og eiginmaður hennar voru meðal þeirra fyrstu sem urðu vör við eldinn. Hún sagði þau hafa séð smá reyk um sexleytið í kvöld og töldu þau fyrst að um kamínu hafi væri að ræða. Berglín náði myndbandi af atvikinu og má sjá það hér að ofan.

Skjáskot úr myndbandi Berglínar
Um leið og þau áttuðu sig á aðstæðum hringdi hún í neyðarlínuna, og stökk eiginmaður hennar ásamt nokkrum öðrum í garðinn til þess að fjarlægja gaskúta og grill sem var á pallinum fyrir aftan húsið.

Skjáskot úr myndbandi Berglínar
Sem betur fer var húsið mannlaust en Berglín segist hafa heyrt frá öðrum sjónarvotta að hundur hafi fundist í búri á pallinum og hann snögglega fjarlægður.

Slökkvilið var mjög fljótt á staðinn og liðu aðeins um fimm mínútur frá símtali þeirra til neyðarlínunnar áður en slökkvistarf hófst að hennar sögn. Berglín segir að slökkvistarf hafi gengið fljótt fyrir sig og að búið hafi verið að ná niðurlögum eldsins um tuttugu mínútum síðar.

Skjáskot úr myndbandi Berglínar
„Þetta gekk mjög snögglega yfir. Ég var mest fegin að hundurinn í búrinu komst heill frá og að enginn lifandi var í húsinu.“

Ekki liggja enn fyrir upplýsingar um upptök eldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×