Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir endaði í 3. sæti í Evrópubikarnum í sprettþraut í Malmö í Svíþjóð.
Sprettþraut samanstendur af 750 metra sundi, síðan taka við 20 kílómetra hjólreiðar og keppendur enda síðan á því að hlaupa fimm kílómetra.
Guðlaug Edda var 22 sekúndum á eftir sigurvegaranum, Jessicu Fullagar frá Frakklandi.
Guðlaug Edda stefnir á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó á næsta ári. Enginn Íslendingur hefur keppt í þríþraut á Ólympíuleikum. Fyrst var keppt í greininni á Ólympíuleikunum í Sydney 2000.

