Nói-Síríus hf. og norska fyrirtækjasamsteypan Orkla ASA hafa komist að samkomulagi um kaup Orkla á 20 prósent hlut í Nóa-Síríus.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nóa-Síríus en þar segir að Orkla sé leiðandi fyrirtæki á neytendavörumarkaði á Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og völdum mörkuðum í Mið-Evrópu og á Indlandi.
Orkla er skráð á hlutabréfamarkað í Noregi og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins í Osló. Velta félagsins árið 2018 var um 41 milljarður norskra króna og eru starfsmenn félagsins yfir 18 þúsund talsins.
„Það er mikil viðurkenning fyrir starfsemi og vörumerki Nóa-Síríus, sem fagnar 100 ára afmæli á næsta ári, að fá Orkla inn í hluthafahópinn. Við eigum von á að samstarfið við Orkla verði farsælt og sjáum tækifæri í því fyrir Nóa-Síríus til framtíðar,“ er haft eftir Áslaugu Gunnarsdóttur, stjórnarformanni Nóa-Síríusar.
Jeanette Hauan Fladby, forstjóri Orkla, virðist einnig vera ánægð með viðskiptin en í tilkynningunni er haft eftir honum að Nói-Síríus falli vel að leiðandi vörumerkjum í eignasafni Orkla.
„Við sjáum mikil tækifæri til að skapa virði með því að nýta styrkleika fyrirtækjanna þvert á markaði, auka skilvirkni í framleiðslu Nóa-Síríus og styrkja stöðu Orkla á Íslandi, sem er vaxandi markaður,“ er jaft eftir Fladby í tilkynningunni.
