Erlent

Kóreumenn kvarta vegna „ögrana“ Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Song, sendiherra Norður-Kóreu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Kim Song, sendiherra Norður-Kóreu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. AP/Richard Drew
Yfirvöld Norður-Kóreu segja Bandaríkjunum um að kenna vegna deilunnar um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun einræðisríkisins. Í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag sagði Kom Song, sendiherra Norður-Kóreu, að Bandaríkin væru að ögra Kóreumönnum með stjórnmála- og hernaðaraðgerðum.

Þá sakaði hann Bandaríkin og Suður-Kóreu um að standa ekki við skuldbindingar sínar í tengslum við fundi leiðtoga ríkjanna með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og sagði það velta á þeim hvort viðræðum milli ríkjanna yrði haldið áfram.

Viðræðum á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu var slitið á fundi Kim og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í febrúar. Þá steig Trump yfir landamæri Suður- og Norður-Kóreu í júní og ræddi stuttlega við Kim. Hann varð þar með fyrsti forsetinn til að fara til Norður-Kóreu.

Trump sagði í síðustu viku að annar fundur með Kim gæti átt sér stað innan skamms, en fór ekki nánar út í það.

Yfirvöld einræðisríkisins vilja losna undan refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum sem Bandaríkin hafa beitt vegna kjarnorkuvopna- og elflaugaáætlunum einræðisríkisins. Ríkisstjórn Bandaríkjanna vilja hins vegar ekki aflétta þvingunum fyrr en Kóreumenn hafa tekið markviss skref í því að losa sig við þau kjarnorkuvopn sem þeir hafa framleitt.

Í ræðu sinni í dag sagði sendiherrann, samkvæmt AP fréttaveitunni, að yfirvöld Suður-Kóreu ættu að hætta heræfingum með Bandaríkjunum og hætta að styðja sig við erlend öfl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×