Tveir voru handsamaðir í hernaðaraðgerðum Bandaríkjahers í norðurhluta Sýrlands sem varð til þess að leiðtogi ISIS, Abu Bakr al-Baghdadi sprengdi sig í loft upp eftir að hafa verið króaður af.
Frá þessu greindi æðsti hershöfðingi Bandaríkjahers, Mark Milley á blaðamannafundi í Pentagon í dag. Milley segir að mennirnir tveir hafi nú verið fluttir á öruggan stað og séu í haldi. BBC greinir frá.
Ekki voru veittar frekari upplýsingar um mennina en Milley greindi frá því að unnið væri að því að ákvarða hvaða hlutar aðgerðarinnar verði opinberaðir. Bandaríkjaforseti greindi frá því fyrr í dag að mögulega yrði myndband frá aðgerðum birt opinberlega.
Um jarðneskar leifar Baghdadi sagði Milley að lík hans hafi verið flutt á herstöð til þess að ákvarða með fullri vissu að um réttan aðila væri að ræða. Því næst hafi líkið verið jarðsett á viðeigandi hátt.
Enginn mennskur meðlimur hersveitarinnar sem stóð að aðgerðinni lét lífið en Milley greindi frá því að þegar al-Baghdadi hafi sprengt sig í loft upp hafi einn hundanna sem tóku þátt í að elta hann uppi fallið. Segir hershöfðinginn að nafn hundsins sé trúnaðarmál.
Í tilkynningu sinni á sunnudag greindi Bandaríkjaforseti frá dauða al-Baghdadi og sagði hann hafa látið lífið grenjandi og vælandi. Milley var spurður út í þá fullyrðingu forsetans og kvaðst hann ekki vita hvernig Trump hefði aflað þeirra upplýsinga. Milley bætti þó við að hann telji að upplýsingarnar hafi komist til forsetans eftir beinar samræður hans við hermenn.
Tveir í haldi Bandaríkjanna eftir aðgerðina gegn al-Baghdadi

Tengdar fréttir

Undanhald Trump sagt hafa raskað aðgerðinni gegn Bagdadi
Bandarískir embættismenn segja að leiðtogi Ríkis íslams hafi verið felldur þrátt fyrir nýlegar aðgerðir Trump forseta í Sýrlandi.

Telur að maður komi í manns stað hjá Ríki íslams
Íslenskur sérfræðingur um málefni Ríkis íslams telur fráfall leiðtoga samtakanna ekki munu hafa teljandi áhrif á starfsemi þeirra.