Þeir töldu að þarna væri íslenski fáninn og þannig væri verið að brjóta fánalögin. Samkvæmt þeim má aðeins nota fánann við sérstök tækifæri. Meinið er hins vegar það að þarna var alls ekki íslenski fáninn við hún heldur fáni leikhópsins en það breytti engu. Lögreglan krafðist þess að fáninn væri tekinn niður.

„Þegar við komum út af sýningunni var þar frammi ungur maður í sjokki. Þetta er útlenskur maður sem vinnur á barnum. Það komu þarna inn fílefldir lögreglumenn en við erum með stóran og mikinn fána sem blaktir fyrir utan Tjarnarbíó þar sem við erum að sýna. Þeir vildu meina að þarna væru brot á fánalögum en þeir stóðu í þeirri trú í fyrstu að þetta væri íslenski fáninn. Þetta er bara alls ekki íslenski fáninn. Þetta er fáni Óskabarna ógæfunnar, leikhópsins okkar, sem vissulega svipar til hins íslenska. En, hann er svartur með hvítum og rauðum krossi. Skiljanlegt að strákunum hafi fundist þetta skrítið,“ segir leikstjórinn.
Lögreglan gaf sig ekki þó henni hafi orðið á
Vignir Rafn hefur fullan skilning á því að þeir hafi ruglast á fánunum en honum þykir sérkennilegt að þegar á þetta hafi verið bent hafi lögregluþjónarnir ekki séð villur síns vegar.„Þegar þeim var bent á að þetta væri svona fannst þeim þetta enn alvarlegra. Sem er verra. Þeir gáfu sig ekki, hinn ungi afgreiðslumaður þurfti að skríða upp á loft til að eiga við fánann. Hann kunni ekki alveg á þetta og það endaði á því að hann tók niður alla fánastöngina, bara eins og hún lagði sig. Þeir voru tveir að baksa við þetta.“
Í anddyrinu hangir uppi myndlistarsýning sem tengist leiksýningunni og þar mátti sá annan fána leikhópsins sem lögreglan virti lengi fyrir sér ábúðarfull. Og var á báðum áttum, hvort ekki væri vert að fjarlægja þann fána einnig. Á endanum veitti lögreglan þó leyfi fyrir honum.

„Enda, ef maður pælir í því þá er fáni náttúrlega ekkert annað en tuskur í mismunandi litum saumaðar saman. Maður ætti ekki að leggja neina að aðra merkingu í það,“ segir Vignir Rafn.
En, auðvitað búum við fánalög þó til standi að gera einhverjar breytingar á þeim í nýju stjórnafrumvarpi.
Ótrúleg lög fánalögin
„Þetta eru ótrúleg lög, fánalögin, þau eru alveg mögnuð. Fáninn má ekki hanga uppi eftir sólsetur. En fulllangt gengið þegar lögreglan, vitandi að þetta var ekki íslenski fáninn, vill rífa hann niður,“ segir leikstjórinn.„Þeir hefðu þeir átt að biðjast afsökunar og fá sér kaffi.En, þetta rímar reyndar ágætlega við verkið,“ segir Vignir Rafn sem ætlar sér ekki að gera neitt í málinu. Þótt hann sé sannfærður um að þarna hafi lögreglan farið yfir strikið. Þetta standist ekki.
„Lögreglan ræður ekki því hvað þú hengir utan á húsið sitt. En, þeir voru kurteisir,“ segir Vignir Rafn og það telur. Vignir Rafn segir það merkilegt hversu erfitt menn eigi með að bakka þó fyrir liggi að þeir hafi rangt fyrir sér. Það á við um ýmislegt annað en þennan gjörning.