Síðasta vor hleyptu Patagonia, bandarískt útivistarvörufyrirtæki og WeMove af stað undirskriftarsöfnun með stuðningi Íslenskra náttúruverndarsamtaka þar sem skorað er á stjórnvöld að láta af opnu sjókvíaeldi. Jón Kaldal, talsmaður Icelandic Wildlife Fund, segist hafa miklar áhyggjur af áhrifum opins sjókvíaeldis á villta laxastofna.

Síðan sleppi reglulega fiskar úr sjúkvíum.
„Þetta húsdýr sem eldislaxinn er, það er stórhættulegt þegar það blandast villtum stofnum. Þá kemur inn DNA úr skepnu sem hefur verið alin sem húsdýr í einhverjar tólf kynslóðir og hefur allt aðra eiginleika en hafa orðið til í náttúruvali í þúsundum ára hjá villtu stofnunum. Þegar erfðablöndunin verður þá ógnar það mjög afkomu villtu fiskanna okkar.“
Villti laxastofninn eigi þegar undir högg að sækja.
„Villti laxinn á nú þegar við erfiðar aðstæður að glíma í hafinu út af loftslagsbreytingum, hækkandi sýrustigi, þannig að með því að bæta við sjókvíum í firðina við Ísland og annars staðar, þá erum við að þrengja verulega að laxi sem er að berjast fyrir tilveru sinni.
Við, hér á Íslandi, eigum sterka og góða laxastofna og okkur hefur farnast vel í verndarmálum villta laxins. Þess vegna er ótrúlega sorglegt að núna á þessum seinni árum skuli sjókvíaeldi, nú í þriðja, fjórða skiptið,vera reynt. Nú er verið að reyna þennan mengandi iðnað hér og með ófyrirséðum afleiðingum fyrir náttúruna.

„Sjókvíaeldi hefur ekkert breyst undanfarin ár. Þetta er ennþá netapoki eins og lögin kalla þennan búnað sem hangir á grind. Þetta er bara net og við vitum að það er ekki spurning hvort net geti rifnað heldur hvenær. Tæknin er hins vegar að þróast mjög hratt.
Það eru að verða gríðarlegar framfarir í landeldi og þar höfum við á Íslandi bestu aðstæður í heimi, og það er ekki bara orð okkar sem erum að berjast fyrir villta laxinum, heldur sérfræðinga hafrannsóknarstofnunar. Við höfum hér mikið af heitu vatni, mikið landsvæði; kjöraðstæður til að ala fisk á landi. Við höfum nú þegar sýnt það. Íslendingar eru sjálfsagt sú þjóð í heiminum sem er komin lengst í bleikjueldi og ég held að íslenskir athafnamenn, sem stunda bleikjueldi, nánast eigi þann markað bara á heimsvísu, eða stóran hluta af honum.“
Og þið vonist nú til þess að undirskriftarsöfnunin hafi einhver áhrif?
„Við vonumst til þess. Það voru ný lög samþykkt um fiskeldi, breytingar á eldri lögum núna í júní og þar er kveðið á um að þeim lögum skuli breyta aftur eigi seinna en 1. maí 2024 þannig að við Íslendingar höfum tækifæri til að herða enn frekar lögin og við viljum sjá að það fari ekki fleiri sjókvíar ofan í firðina okkar og að það verði hreinlega lögð lína um það að allar sjókvíar verði bannaðar og allt eldi fært á land á næstu árum. Við vonumst til að ný löggjöf muni leggja þá línu,“ segir Jón Kaldal.