Hillary Clinton gagnrýndi bresk stjórnvöld harðlega í dag og sagði til skammar að skýrsla um áhrif Rússa á breskar kosningar hafi ekki verið birt.
Clinton þekkir nokkuð vel til inngripa Rússa í kosningar enda komst sérstakur saksóknari bandaríska dómsmálaráðuneytisins að því að Rússar hafi með skipulögðum hætti haft óeðlileg afskipti af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. Clinton tapaði fyrir Donald Trump í þeim kosningum.
Ríkisstjórn Boris Johnson á Bretlandi hefur verið sökuð um að sitja á skýrslu stjórnvalda um rússnesk afskipti af bresku lýðræði. Skýrslan byggir á gögnum frá breskum leyniþjónustustofnunum og fjallar um aðgerðir Rússa í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit árið 2016 og þingkosninganna ári síðar.
Skýrslan var fullkláruð í mars og send til forsætisráðuneytisins í október. Ekki er útlit fyrir að hún verði birt fyrir þingkosningar desembermánaðar.
Af þessu tilefni sagði Clinton að breskir kjósendur ættu rétt á því að fá að sjá skýrsluna fyrir kosningar. Annað væri einfaldlega óskiljanlegt.
Ríkisstjórnin hefur sagt fullkomlega eðlilegt að bíða með birtingu í ljósi þess hversu viðkvæmt umfjöllunarefnið er og Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur neitað sök.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-10-05T144457.831Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-10-05T144408.023Z-keflavik.png)