Innlent

Mótorhjólamaður flúði lögreglu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tilkynnt var um þó nokkur heimilisofbeldismál í nótt.
Tilkynnt var um þó nokkur heimilisofbeldismál í nótt. Vísir/Vilhelm
Nóttin var fjörug hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og var nóg um að vera, sérstaklega í miðborginni. Þá segir í skýrslu lögreglu að allt hafi farið vel.

Ráðist var á einstakling rétt upp úr miðnætti en hann hafði verið neyddur til að millifæra fé. Málið er nú í rannsókn hjá lögreglu. Þá komu nokkur heimilisofbeldismál upp í nótt og voru þau afgreidd samkvæmt venju.

Minnst átta ökumenn voru teknir vegna ölvunar við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Upp úr klukkan eitt í nótt var tilkynnt um mótorhjólamann í Hafnarfirði en þegar lögreglumenn mættu honum og gáfu merki um að stöðva akstur hundsaði hann tilmæli lögreglu. Stuttu síðar féll ökumaðurinn af hjólinu og gerði „heiðarlega tilraun“ til að hlaupa undan lögreglumönnunum. Þeir voru þó fljótir að hafa hendur í hári ökumannsins og var hann handtekinn á staðnum.

Ökuréttindi mannsins voru ekki í lagi og hann reyndist vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Aðilinn var einnig með fíkniefni á sér og bifhjólið sem hann ók var ekki tryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×