Erlent

Verður að öllum líkindum yngsti for­sætis­ráð­herra í heimi

Eiður Þór Árnason skrifar
Ef Sanna Marin kemst í forsætisráðherrastólinn verður hún þriðja konan til að gegna embættinu í Finnlandi.
Ef Sanna Marin kemst í forsætisráðherrastólinn verður hún þriðja konan til að gegna embættinu í Finnlandi. Vísir/Ap
Sanna Marin, núverandi samgöngu- og fjarskiptamálaráðherra finnskra Jafnaðarmanna, verður að öllum líkindum næsti forsætisráðherra Finnlands. Marin, sem er 34 ára, yrði þá yngsti forsætisráðherra í heimi.

Miðstjórn Jafnaðarmanna valdi í dag forsætisráðherraefni flokksins og hverjir verði ráðherrar í nýrri ríkisstjórn. Fulltrúar flokkanna fimm sem starfað hafa saman í ríkisstjórn Finnlands vinna nú að myndun nýrrar stjórnar og er talið líklegt að hún verði undir forystu Marin. Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram í dag.

Antti Rinne, formaður Jafnaðarmannaflokksins, baðst lausnar sem forsætisráðherra síðastliðinn þriðjudag eftir að Miðflokkurinn, sem á sæti í ríkisstjórn hans, sagðist ekki treysta flokknum lengur til að leiða stjórn.

Val miðstjórnarinnar stóð á milli Marin og Antti Lindtman, 37 ára þingflokksformanns Jafnaðarmanna. Marin hafði betur með þremur atkvæðum, eða 32 gegn 29 atkvæðum Lindtman.

Marin er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Tampere og hefur tekið virkan þátt í stjórnmálum í yfir tíu ár. Hún hóf stjórnmálaferill sinn í borginni Tampere í suðurhluta Finnlands og gegndi þar stöðu formanns borgarráðs á árunum 2013 til 2017.

Þingkosningar fóru fram í Finnlandi í vor og myndaði Jafnaðarmannaflokkurinn þá stjórn með Græningjum, Miðflokknum, Vinstra bandalaginu og Sænska þjóðarflokknum. Stefnt er að því að ný stjórn þessara flokka geti tekið við völdum næsta þriðjudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×