Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð hafa verið framkvæmd af þremur starfsmönnum deildar eigin viðskipta Glitnis að undirlagi Jóhannesar Baldurssonar og Lárusar Welding, þáverandi forstjóra Glitnis.
Allir fimm voru sakfelldir í héraði. Lárusi var ekki gerð refsing þar sem hann hafði áður hlotið hámarksrefsingu í öðrum hrunmálum. Starfsmenn deildar eigin viðskipta fengu skilorðsbundna dóma á bilinu sex til tólf mánaða. Sá sem hlaut sex mánaða fangelsisdóm áfrýjaði sömuleiðis dómnum.
Brotin ekki fyrnd
Jóhannes krafðist endurskoðunar á úrskurðum héraðsdóms fyrir Landsrétti. Hann taldi að brotinn hefði verið á sér réttur til að fá aðgang að gögnum til að undirbúa vörn sína í héraði. Landsréttur taldi þessi sjónarmið ekki geta leitt til sýknu og hafnaði því að ómerkja dóm héraðsdóms á þessum grunni.Ekki var fallist á að brot Jóhannesar væri fyrnd enda hefði hann verið ákærður og sakfelldur í héraðsdómi áður en tíu ára fyrningarfrestur brotsins rann út.
Landsréttur taldi ákæruvaldið aftur á móti ekki hafa sýnt fram á að háttsemi stafsmanns eigin viðskipta hefðu varðað sakfellingu og var hann sýknaður.
Níu ár síðan málið rataði á borð sérstaks saksóknara
Landsréttur taldi hins vegar að þegar litið væri til stöðu Jóhannesar í bankanum og upplýsinga sem hann hafði fengið um stöðu bankans í eigin hlutabréfum hlyti hann að hafa vitað af umfangsmiklum kaupum deildar eigin viðskipta Glitnis á hlutabréfum í bnakanum.„Jafnframt að honum hefði ekki getað dulist að þau gátu ekki byggst á viðskiptalegum sjónarmiðum,“ segir í dómi Landsréttar.
Var Jóhannes því sakfelldur en dómurinn skilorðsbundinn, óhjákvæmilega vegna mikilla tafa sem orðið hefðu á málinu. Níu ár eru síðan Fjármálaeftirlitið kærði málið til sérstaks saksóknara.