Viðskipti innlent

Makrílveiðimenn töpuðu bar­áttu sinni við ríkið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásmundur Skeggjason er talsmaður Félags makrílveiðimanna.
Ásmundur Skeggjason er talsmaður Félags makrílveiðimanna. Vísir/ÞÞ

Tólf fyrirtæki sem standa að Félagi makrílveiðimanna fá engar skaðabætur frá íslenska ríkinu vegna úthlutunar á aflahlutdeild á makríl. Ástæðan var sú að krafan var fyrnd.

Með frumvarpinu sem varð að lögum í júní 2019 féllu veiðar á makríl undir íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið. Minni útgerðarfyrirtæki gagnrýndu breytingarnar og sögðu að þannig færu miklar heimildir til veiða frá litlu útgerðunum til þeirra stærri.

Breytingarnar fólu í sér að ákveðið var við úthlutun kvótans að miða við hversu mikið útgerðirnar veiddu tímabilið 2008 til 2018. Félag makrílveiðimanna vildi að miðað yrði við síðustu þrjú ár eða þrjú bestu veiðitímabilin af síðustu sex.

Um er að ræða annað málið sem Félag makrílveiðimanna höfðar á hendur íslenska ríkinu. Fyrra málið var höfðað í janúar 2020 og lauk með frávísun Hæstaréttar frá héraðsdómi vorið 2023. Tekist var á um viðurkenningu á að óheimilt hefði verið að takmarka heimildir félagsmanna til makrílveiða.

Sex mánuðum síðar stefndi félagið ríkinu til skaðabóta vegna úthlutunar. Þá voru liðin nokkur ár frá því að lögin tóku gildi en fyrningarfrestur er sex mánuðir. Félagið taldi að við frávísun í fyrra málinu hefði myndast nýr fyrningarfrestur en á það féllst Hæstiréttur ekki.

Benti rétturinn á að allt frá birtingu laganna í júní 2019 hefðu legið fyrir upplýsingar um að lögin myndu leiða til skerðingar fjárhagslegra hagsmuna félagsmanna og þar með valda þeim tjóni. Fyrningarfresturinn hefði í síðasta lagi byrjað við úthlutun Fiskistofu á aflamarki makríls í ágúst það ár. Ekki hefði skipt máli þótt ekki hefði verið hægt að staðreyna nákvæmlega endanlega fjárhæð tjónsins.

Ekki var fallist á endurnýjaðan fyrningarfrest við dómsuppsögu í fyrra málinu enda væru sakarefni í málunum ólík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×