„Þetta er náttúrulega ótrúlega mikill heiður að vera nefndir á þessum lista samhliða þessum seríum og finnum við fyrir mikilli eftirvæntingu og spennu fyrir þáttunum hér heim og erlendis,“ segir Davíð Óskar Ólafsson einn leikstjóra þáttanna í samtali við Vísi. Hann segir að þættirnir séu nú á lokametrunum í eftirvinnslu en þeir eru framleiddir af Truenorth og Mystery Productions .

„Þættirnir fjalla um fyrsta íslenska raðmorðingjann. Það eru framin tvö morð á Íslandi á mjög stuttum tíma þar sem bæði fórnarlömbin eru myrt á sama hátt. Það eru þó engin tengsl á milli þeirra, sem gerir þetta enn þá erfiðara fyrir lögregluna því morð á Íslandi eru yfirleitt ástríðuglæpir. Lögreglan er því undir mikilli pressu og fá áhorfendur að fylgjast með rannsóknarlögreglumönnum reyna að leysa morðgátuna. Svo koma fjölmiðlar inn í þetta og þeir setja pressu á lögregluna og velta upp spurningunni hvort lögreglan á Íslandi geti höndlað svona stórt mál,“ sagði Þórður um þættina í samtali við Vísi.
Með aðalhlutverk fara þau Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Thors. Stiklu fyrir þættina má sjá hér að neðan.