Rannsókn sem útgerðarfyrirtækið Samherji hrinti af stað vegna starfsemi sinnar í Namibíu „miðar ágætlega“. Þetta kemur fram í Þorláksmessubréfi til starfsmanna Samherja sem Björgólfur Jóhannsson starfandi forstjóri birtir á vef fyrirtækisins í dag. Þar kemur einnig fram að málið hafi ekki haft teljandi áhrif á reksturinn.
Í aðdraganda umfjöllunar um meinta brotastarfsemi Samherja í Namibíu tilkynnti Samherji að fyrirtækið hefði ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að framkvæma ítarlega rannsókn á starfsemi fyrirtækisins í Afríku.
Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðustu viku að Wiborg Rein vinni á sama tíma við að verja fjárhagslega hagsmuni Samherja í Namibíu.
Sjá einnig: Björgólfur segist viss um að Samherji hafi ekkert ólöglegt gert
Björgólfur segir í bréfi sínu til starfsmanna að rannsókninni miði ágætlega, líkt og áður sagði. Vonast sé til þess að niðurstöður hennar liggi fyrir fljótlega á nýju ári. Það sé markmið Samherja að „félagið standi af sér storminn og komi mun sterkara í gegnum hann.“
„Ég veit að sum ykkar vildu að Samherji svaraði ásökunum á hendur fyrirtækinu af meiri krafi. Ekki velkjast í neinum vafa um að við munum leiðrétta allar rangfærslur um félagið. Við erum bara rétt að byrja. Sem betur fer hefur þetta mál ekki haft teljandi áhrif á reksturinn og það er fyrst og fremst ykkur að þakka,“ skrifar Björgólfur.
Forsvarsmenn Samherja hafa haldið því fram að fréttir af meintum mútugreiðslum Samherja í Namibíu byggi á völdu efni úr pósthólfi Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara. Þá hefur Björgólfur sjálfur lýst því yfir að hann trúi því ekki að Samherji hafi greitt neinar mútur.
Áðurnefndur Jóhannes sagði í Kastljósi fyrr í mánuðinum að slíkar yfirlýsingar úr herbúðum Samherja standist enga skoðun. Þá boðaði hann birtingu fleiri pósta um málefni Samherja. Þá ritaði Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks Björgólfi opið bréf í síðustu viku þar sem hann sagði ekkert mál að birta umrædda tölvupósta – en Björgólfur verði helst að gefa grænt ljós á það sjálfur.
Samherji „bara rétt að byrja“

Tengdar fréttir

Björgólfur efast um að Samherjamálið byggi á heiðarlegri blaðamennsku
Björgólfur Jóhannsson svarar Kristni Hrafnssyni.

Gerir lítið úr spurningum um hæfi sitt gagnvart Samherja
Sjávarútvegsráðherra segist ekki ætla að stíga til hliðar og segir pólitík ástæðu þess að hæfi hans í málum sem tengjast Samherja sé dregið í efa.

Wikborg Rein gætir hagsmuna Samherja í Namibíu
Lögfræðifyrirtækið sem Samherji hefur fengið til að skoða meinta brotastarfsemi fyrirtækisins í Namibíu vinnur á sama tíma við að verja fjárhagslega hagsmuni Samherja í landinu.

Sigurður Ingi fer með Samherjamál í stað Kristjáns Þórs
Málin tengjast öll útgerðarfyrirtækinu Samherja en Kristján Þór ákvað að segja sig frá þeim vegna vanhæfis.