Leigubílstjórar sem hafa haft atvinnuleyfi í skemur en tvö ár munu fá heimild að leggja inn atvinnuleyfi sitt samkvæmt nýju frumvarpi samgönguráðherra. Er markmiðið að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum vegna faraldurs kórónuveirunnar á þann hóp leigubílstjóra sem hefur starfað skemur en tvö ár.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að í gildandi lögum um leigubifreiðar frá 2001 hafi bílstjórar slíkra bíla heimild til að leggja inn atvinnuleyfi sitt en skilyrði er að þeir hafi haft atvinnuleyfi í minnst tvö ár samfleytt.
„Markmið frumvarpsins er að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum vegna Covid-19 faraldursins á þann hóp leigubifreiðastjóra sem hafa starfað skemur en tvö ár. Með því að leggja inn leyfið geta leigubílstjórar sparað kostnað vegna atvinnuleyfisins, skráð sig atvinnulausa og sótt um atvinnuleysisbætur. Margir bílstjórar hafa þegar nýtt sér það úrræði vegna samdráttar á leigubifreiðamarkaði sökum áhrifa COVID-19 faraldursins.
Lagt er til að nýja ákvæðið gildi til ársloka 2020, en frumvarpið hefur þegar verið lagt fram á Alþingi til breytinga á lögum um leigubifreiðar.