Fótbolti

Giggs: Ákveðnir leikmenn fengu aldrei hárblásarann frá Ferguson

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gullárgangur Manchester United fékk enga sérmeðferð hjá Sir Alex.
Gullárgangur Manchester United fékk enga sérmeðferð hjá Sir Alex. Mynd/Gettyimages

Manchester United goðsögnin Ryan Giggs er sá leikmaður sem spilaði flesta leiki undir stjórn hins sigursæla Sir Alex Ferguson hjá enska stórveldinu og saman unnu þeir til fjölda verðlauna í 27 ára stjóratíð Ferguson.

Ferguson tók við Man Utd árið 1986 og fjórum árum síðar spilaði Giggs sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins.

Ferguson þótti harður í horn að taka og hikaði ekki við að láta leikmenn sína heyra það ef honum fannst þeir ekki vera að leggja sitt af mörkum. Eru mörg dæmi um leikmenn sem fengu eldræðu frá Ferguson yfir sig og hafa þeir lýst því sem þeir hafi lent fyrir hárblásara.

Giggs segir fjóra leikmenn hafa fengið sérmeðferð hjá Skotanum og allir áttu þeir eitt sameiginlegt.

„Það giltu önnur lögmál um nokkra leikmenn. Þeir fengu meiri slaka. Cantona var einn af þeim auk Bryan Robson. Hinir voru Roy Keane og Cristiano Ronaldo. Þessir leikmenn gátu unnið leiki fyrir okkur upp á eigin spýtur og Ferguson gerði sér grein fyrir því.“ segir Giggs í viðtali við beIN Sports.

„Eric átti það til að hreyfast varla á vellinum og við spurðum sjálfa okkur að því hvers vegna Ferguson myndi líða það og héldum að stjórinn myndi hjóla í hann. En það gerðist ekki. Svo tók Eric sig til og vann nokkra leiki í röð fyrir okkur og við skildum afhverju,“ segir Giggs.

Giggs hefur sjálfur verið að hasla sér völl sem þjálfari eftir að leikmannaferlinum lauk árið 2014 en hann er nú starfandi landsliðsþjálfari Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×