Atvinnulíf

Helena einhenta, fjarkennsla og söngvakeppnin í Rotterdam

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þessa helgina ákváðum við að heyra í Íslending sem starfar og býr erlendis. Reynir Þór Eggertsson, lektor við háskólann í Helsinki er gestur kaffispjallsins í þetta sinn.
Þessa helgina ákváðum við að heyra í Íslending sem starfar og býr erlendis. Reynir Þór Eggertsson, lektor við háskólann í Helsinki er gestur kaffispjallsins í þetta sinn.

Síðustu vikur höfum við heyrt um fjöldann allan af Íslendingum að koma heim vegna kórónuveirunnar. En það á alls ekki við um alla því margir Íslendingar starfa erlendis. Reynir Þór Eggertsson er einn þeirra. Hann er búsettur í Helsinki þar sem hann starfar sem lektor við Háskólann í Helsinki. Samhliða kennslunni vinnur Reynir Þór að bók um gerð miðaldarkvæðis um Helenu einhentu.

Reynir Þór þekkja margir sem einn helsta Eurovision sérfræðing landsins. Hann bendir á ástralska samninginn sem leið sem söngvakeppnin hefði getað nýtt sér til að falla ekki alveg frá áformum um einhvers konar keppni í ár. 

Reynir Þór er gestur okkar í kaffispjalli helgarinnar þar sem við spyrjum fólk alltaf um það hvenær það vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um vinnuna og skipulagið.

Morgunúfið hár í fjarkennslu

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég er algjör B-manneskja svo að það er nokkuð misjafnt hvenær ég vakna.

Best finnst mér að vakna svona upp úr klukkan 9 svo að ég sé kominn í gang um 10 leytið. Helst vil ég byrja að kenna klukkan 10, en suma daga byrja ég 8.15 eða 9.15 og þá vakna ég rétt um 7 eða að nálgast 8.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Snúsa vekjaraklukkunni aðeins meðan ég sannfæri mig um það að rétt sé að koma mér á fætur.

Þessar vikurnar þegar ég kenni heima þá velti ég því oft fyrir mér hvort nemendur mínir þoli morgunúfið hárið eða ekki á skjánum hjá sér.“

Voru viðbrögð menntakerfisins þar eitthvað sambærileg og á Íslandi?

„Að mörgu leyti svipuð í framhalds- og háskólum. Hér fer öll kennsla á þessum stigum fram á netinu og hefur bara reynst nokkuð vel, að minnsta kosti í bóknámi.

Leikskólum og grunnskólum hefur aftur á móti verið lokað algjörlega, nema fyrir börn þess starfsfólks sem heldur samfélaginu gangandi. Þetta á við upp í 3. bekk, sem er 4. bekkur á Íslandi.

Í efri bekkjum fer kennsla fram á netinu, og svo líka gagnvart þeim yngri börnum sem ekki fá að fara í skólann.“

Tómlegt í göngutúr í hverfinu í Helsinki þar sem Reynir Þór býr. Hann segir að töluvert hafi reynt á við að koma allri kennslu á netið en það hafi þó gengið vel og allt að komast í fastar skorður í fjarkennslu.Vísir/Aðsent

Rannsóknarstörf og kennsla

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Talsverður tími hefur farið í skipulagsbreytingar á kennslunni vegna ástandsins, en það er að jafna sig, en ég er enn að velta fyrir mér hvernig best sé að hafa lokapróf í íslenskunámskeiðunum mínum.

Þá er ég að reyna að klára lokauppkast að bók upp úr doktorsverkefninu mínu sem vonandi kemur út í náinni framtíð. Þetta er bók um danskar og íslenskar gerðir fransks miðaldakvæðis um Helenu einhentu.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Föstu kennslustundirnar á kennslutímanum leggja línurnar fyrir vikuna hvar undirbúningur kennslu og yfirferð verkefna lendir.

Ég legg mikið upp úr því að fara fljótt og vel yfir verkefni frá nemendum, svo að þeir hafi góðan tíma til úrvinnslu á mínum athugasemdum.

Þá þarf ég að huga að rannsóknartíma og almennri skrifstofuvinnu sem fylgir starfinu, að koma því þannig að tíminn nýtist bæði vel og skipulega.

Ég hef venjulega einn kennslulausan dag á viku og hann nýtist einna best í rannsóknarstörfin og svo auðvitað tímabilin þar sem engin kennsla fer fram.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Venjulega um klukkan eitt, nema ég þurfi að vakna sjö, þá reyni ég að sofna um miðnætti.“

Söngvakeppnin í vor hefði verið möguleg

Það liggur í augum uppi að við kveðjum ekki þennan gest okkar, án þess að ræða aðeins um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Við spyrjum Reynir Þór hvað honum finnist um að hún hafi verið blásin af.

Reynir Þór er þeirrar skoðunar að það hefði verið hægt að standa fyrir einhvers konar söngvakeppni 2020.

„Ég er auðvitað bara miður mín út af ástandinu í heiminum öllum og í því stóra samhengi er Söngvakeppnin algjört aukaatriði.

Mér finnst þó leiðinlegt að ekki hafi verið fundin önnur lausn á málinu en að aflýsa keppninni algjörlega.

Það hefði til dæmis alveg verið hægt að nota einhvers konar grænskjá og varpa öllum keppendum úr heimalandinu á sviðið í Rotterdam og hafa kosningu en um leið semja um að keppnin á næsta ári færi fram í Rotterdam óháð sigurvegara 2020 og þá í einhvers konar sambærilegu samstarfi og er í samningnum við Ástralíu almennt.“


Tengdar fréttir

Sér fyrir sér góðan dag þar sem verkefnin leysast farsællega

Í kaffispjalli um helgar fáum við innsýn í líf og starf fólks sem vinnur í ólíkum störfum. Víðir Þór Þrastarson heilsu- og einkaþjálfari í World Class gefur án efa mörgum góðar hugmyndir um heilbrigðan lífstíl um leið og hann lýsir dæmigerðum vinnudegi hjá sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×