Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden. Biden var varaforseti Obama og eru þeir góðir vinir en í myndbandi sem hann birti á netinu, fór Obama yfir það sem hann taldi kosti Biden og af hverju það væri mikilvægt að kjósa hann í embætti forseta.
Obama fór einnig yfir það hvaða aðgerðir væru nauðsynlegar á næstu árum
Biden mun hljóta tilnefningu Demókrataflokksins til kosninganna sem fara fram í nóvember en Bernie Sanders, sá eini sem var eftir gegn Biden, hætti framboði sínu í síðustu viku og hefur lýst yfir fullum stuðningi við Biden.
Í áðurnefndu myndbandi, sem sjá má hér að neðan, fór Obama yfir það hvað Biden stóð fyrir þegar Biden var varaforseti hans. Hann sagði það eina bestu ákvörðun sem hann hafi tekið að velja Biden sem varaforseta sinn.
I m proud to endorse my friend @JoeBiden for President of the United States. Let's go: https://t.co/maHVGRozkX
— Barack Obama (@BarackObama) April 14, 2020
Meðal annars sagði hann Biden hafa ítrekað staðið við bakið á miðstétt Bandaríkjanna og fátæka.
Í yfirlýsingu Obama sagði hann einnig að heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar hefði varpað ljósi á það hve nauðsynleg góð stjórnsýsla væri. Hún skipti miklu máli og í beinu framhaldi af því skiptu kosningar miklu máli.