Rúmlega tvítugur karlmaður sem handtekinn var í nótt vegna útkalls að Ölfusá hefur verið látinn laus úr haldi lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Maðurinn hafði hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt að hann hefði fallið í Ölfusá, en reyndist svo fylgjast með björgunaraðgerðum úr felum.
Í tilkynningunni segir að hann hafi kannast við að hafa hringt eftir aðstoð lögreglu vegna málsins og gefið sínar skýringar á útkallinu.
„Málið telst upplýst og fer nú sína leið til ákæruvalds til ákvörðunar um framhald þess,“ segir í tilkynningunni.
Mikill viðbúnaður var hjá öllum viðbragðsaðilum í Árnessýslu eftir að tilkynningin barst til lögreglu um klukkan hálf eitt í nótt.
Allar björgunarsveitir í Árnessýslu, auk lögreglu, sjúkraflutningamanna og slökkviliðs var kallað út og voru bátar sendir út til leitar. Þá var leitað úr lofti með drónum og frá landi með hitamyndavél.