Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, segir að óvissa ríki um meiðsla Arnars Freys Ólafssonar, markmanns HK, sem fór út af í tapleiknum gegn FH í Pepsi Max-deild karla í gærkvöldi.
HK-ingar urðu fyrir áfalli í gær er bæði Arnar og Bjarni Gunnarsson fóru af velli í fyrri hálfleiknum gegn FH. Brynjar Björn svaraði til um meiðsli þeirra í kvöld.
„Ég held að Bjarni sé ekki alvarlega meiddur. Hann fékk tak aftan í lærið en hann á eftir að hitta sjúkraþjálfara og meta það,“ sagði Brynjar Björn í samtali við Rikka G í kvöld.
„Það er meiri óvissa í kringum Arnar. Hann fer til sjúkraþjálfara og til læknis og í myndatökur. Við þurfum að skoða það betur og reyna að fá einhvern tímaramma á þau meiðsli og sjá hvort að við þurfum að gera eitthvað í þeirri stöðu.“
Sigurður Hrannar Björnsson kom inn af bekknum í gær og gerði slæm mistök í öðru marki FH. Hann hefur lítið spilað undanfarið ár en næsti leikur HK er gegn Íslandsmeisturum KR á útivelli á laugardaginn.