Húsbíll og tvö bifhjól skullu saman á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi á fjórða tímanum í dag. Hvalfjarðargöngum hefur verið lokað og mikill viðbúnaður er á staðnum. Fjöldi sjúkrabíla og lögreglubíla voru sendir á vettvang auk tveggja dælubíla frá slökkviliðinu.

Vesturlandsvegi við Þingvallaveg og Hvalfjarðargöngum hefur verið lokað en lögreglan hefur opnað fyrir hjáleið um Hvalfjarðarveg, Kjósarskarð og svo Þingvallaleið. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu verður Vesturlandsvegur um Hvalfjarðargöng lokaður í minnst tvo klukkutíma í viðbót. Þó segir á Twitter hjá Vegagerðinni að göngin hafi verið opnuð aftur.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig send á vettvang en eftir að hún lenti sunnan megin við göngin var hún send norður fyrir göng til að sækja sjúkling sem sjúkrabíll hafði verið á leið með til Reykjavíkur. Sjúkrabíllinn komst ekki í gegn um göngin og var sjúklingurinn því fluttur með þyrlunni suður til Reykjavíkur.
Hvalfjarðargöng: Löng lokun vegna umferðarslyss á Kjalarnesi við Hvalfjarðargöng. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) June 28, 2020
Þá sagði talsmaður slökkviliðs í samtali við fréttastofu að þrír einstaklingar sem lentu í slysinu verði fluttir með sjúkraflutningum til Reykjavíkur á sjúkrahús. Ekki sé hægt að greina frá líðan þeirra eða áverkum að svo stöddu.
Fréttin var uppfærð klukkan 16:15.