Talið er að lögreglumaður hafi handleggsbrotnað eftir að ráðist var á hann í miðborginni skömmu fyrir miðnætti.
Í dagbók lögreglu segir að lögreglumaðurinn hafi verið við skyldustörf í miðborginni þegar ráðist var á hann. Er hann sem fyrr segir talinn handleggsbrotinn. Málið er í rannsókn lögrelgu en ekki er tekið fram hvort að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn eða ekki.
Þetta var ekki eina líkamsárásin sem kom inn á borð lögreglu í gær eða nótt. Tvær líkamsárásir voru tilkynntar í Hafnarfirði skömmu fyrir miðnætti og ein í Reykjavík.
Þá var maður sem vopnaður var kylfu í miðborginni handtekinn. Sá reyndi að komast undan lögreglu og hlýddi viðkomandi ekki fyrirmælum hennar.
Nokkur erill var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt en þó nokkur ölvun virðist hafa verið í miðborginni ef marka má dagbók lögreglu. Fjölmörg mál eru bókuð þar sem ölvun kemur við sögu. Alls voru 100 mál bókuð á millu 17 í gær og 5 í nótt.
Þannig var tilkynnt um ölvaðan mann sem væri að öskra á fólk í miðborginni í gærkvöldi, tilkynnt um ölvaða konu sem væri að ganga í veg fyrir bíla, tilkynnt um ógnandi mann sem var mjög ölvaður og svona mætti áfram telja.