Þrátt fyrir að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar gæti ekki eins mikið hér á landi og var fyrir örfáum mánuðum er hann ekki í rénum. Enn geisar faraldurinn víða um heim og herjar á heimsbyggðina.
Tilfelli kórónuveiru halda áfram að aukast í Bandaríkjunum og nú hefur borgarstjóri Atlanta borgar, sem nefnd hefur verið sem mögulegt varaforsetaefni Demókrata, smitast af veirunni.
Guardian greinir frá því að borgarstjórinn hin 50 ára gamla Keisha Lance Bottoms hafi staðfest að hún sé sýkt af kórónuveirunni. Bottoms sagði að hún væri einkennalaus en ákvað að fjölskyldan skyldi fara í sýnatöku eftir að eiginmaður hennar hafði verið þreyttur og sofið mikið síðan á fimmtudag.
„Ég er orðlaus og ég tel að þetta sýni hversu smitandi veiran er í raun, sagði Bottoms í samtali við MSNBC. „Við höfum fylgt öllum sóttvarnartilmælum og ég hef ekki hugmynd um hvenær við vorum útsett fyrir smiti.“
Frægðarsól Bottoms, sem er á sínu fyrsta kjörtímabili sem borgarstjóri Atalanta, hefur risið þónokkuð á undanförnum vikum og mánuðum vegna framgöngu hennar í baráttunni gegn kórónuveirunni og fyrir réttindum svartra í Bandaríkjunum.