Fjörutíu og fimm Frakkar flugu frá París í dag til að fara í siglingu með lúxusskemmtiferðaskipi sem siglir frá Reykjavík. Tveir Frakkar sem fréttastofa ræddi við sögðust hafa komið til Íslands því hér sé öruggt.
Franska skemmtiferðaskipið Le Boreal lagðist við Miðbakka snemma í morgun en það siglir fram og til baka til Grænlands. Frakkarnir sem komu til landsins í hádeginu fóru allir í kórónuveiruskimun á Keflavíkurflugvelli og voru komnir um borð í skipið nú á sjöunda tímanum.
Ekki voru enn komnar niðurstöður úr skimuninni en allir farþegarnir voru skimaðir fyrir veirunni í Frakklandi og voru þá neikvæðir. Skipið siglir með farþegana til Grænlands þegar niðurstöður berast.
Fréttastofa ræddi við tvo Frakka sem biðu eftir niðurstöðum úr skimun í dag. Þau sögðust hafa ákveðið að koma til Íslands því hér sé öruggt.
„Í Frakklandi eru 30 þúsund dánir úr Covid-19, hér eru þeir tíu. Þetta er svarið mitt,“ sagði Laura Callet, farþegi Le Boreal.
„Þetta er tækifæri til að vinna á sumrin og möguleiki á að ferðast,“ sagði Jonathan Zaccaria, sem er í áhöfn Le Boreal.
Að sögn Emmu Kjartansdóttur, deildarstjóra skipadeildar hjá Iceland Travel, hefur ekkert smit komið upp í skipinu frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Hún kvað vera almenna ánægju með að fyrstu siglingar skemmtiferðaskipa séu nú að hefjast á ný.
Le Boreal kemur nokkrum sinnum til Reykjavíkur í sumar ásamt öðru frönsku skemmtiferðaskipi. Langflest skemmtiferðaskip hafa hins vegar afboðað komu sína eins og raunin er á Ísafirði.