Fótbolti

Solskjær: Ekki leikurinn sem skilgreinir tímabilið okkar

Sindri Sverrisson skrifar
Það verða eflaust einhverjar neglur nagaðar á leik Leicester og Manchester United í dag, sem og á leik Wolves og Chelsea.
Það verða eflaust einhverjar neglur nagaðar á leik Leicester og Manchester United í dag, sem og á leik Wolves og Chelsea. VÍSIR/GETTY

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, vill ekki gera of mikið úr mikilvægi leiksins við Leicester í dag í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Ef United tapar leiknum, og Chelsea tapar ekki gegn Wolves, enda Solskjær og hans menn í 5. sæti og missa þar með af Meistaradeildarsæti. Þá ættu þeir þó enn von um að komast í Meistaradeildina með því að vinna Evrópudeildina í næsta mánuði.

„Við erum ekki komnir á endastöð. Ef að við náum í stig gegn Leicester held ég að fólk muni segja að við höfum nú ekki átt slæmt tímabil,“ sagði Solskjær.

„En hvað sem gerist þá er þetta ekki endirinn á okkar ferðalagi því við eigum enn talsvert í land með að ná liðunum tveimur fyrir ofan okkur,“ sagði Solskjær.

Ljóst er að taugar manna verða þandar kl. 15 í dag en Solskjær reyndi að láta eins og að um hvern annan leik væri að ræða.

„Ef að maður vill tilheyra Manchester United þá verður maður að venjast því að vera undir pressu í síðasta leik tímabilsins. Þetta er ekkert nýtt, og á þessu byggir félagið. Við höfum búið okkur til frábært tækifæri til að enda tímabilið vel og nú er það okkar að nýta það,“ sagði Solskjær.

„Þetta er ekki mikilvægasti leikur tímabilsins, þetta er bara næsti leikur. Þú getur spurt hvern sem er í fótboltanum, næsti leikur er alltaf sá mikilvægasti. Úrslitin skilgreina ekki tímabilið okkar, við höfum þegar átt margar stundir sem að skilgreina þetta tímabil.“

„Koma Bruno Fernandes breytti miklu fyrir okkur og ég tel að heilt yfir séum við í betra formi og mun sterkari andlega en á síðasta tímabili,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×