Fyrrverandi yfirþjálfari fimleikadeildar Ríkisháskólans í Michigan í Bandaríkjunum var dæmdur í níutíu daga fangelsi fyrir að ljúga að lögreglu við rannsóknina á stórfelldum kynferðisbrotum Larrys Nassar, fyrrverandi læknis bandaríska ólympíuliðsins í fimleikum.
Tvær konur báru vitni fyrir dómi árið 2018 að þær hefðu sagt Kathie Klages, yfirfimleikaþjálfara Ríkisháskólans í Michigan, frá því að Nassar hefði misnotað þær kynferðislega árið 1997. Þær voru þá táningar. Önnur þeirra sagði að Klages hefði varað þær við alvarlegum afleiðingum ef þær kvörtuðu undan lækninum.
Þegar rannsakendur í máli Nassar tóku skýrslu af Klages hafnaði hún því að hafa vitað af misnotkun Nassar á fimleikastúlkum og konum fyrir árið 2016 þegar fórnarlamb hans byrjuðu að greina frá ofbeldinu opinberlega. Hélt hún því fram fyrir dómi að hún myndi ekki eftir að hafa verið sagt frá misnotkuninni og að hún gengi til sálfræðings til að reyna að rifja samtölin upp.
Klages var sakfelld fyrir meinsæri í febrúar og hefur nú verið dæmd í þriggja mánaða fangelsi. Hún verður þar að auki á skilorði í átján mánuði, að sögn AP-fréttastofunnar.
Nassar var dæmdur til 40 til 175 ára fangelsisvistar árið 2018 fyrir að hafa misnotað ungar stúlkur og konur undir því yfirskyni að ofbeldið væri læknismeðferð. Yfirmaður Nassar hjá háskólanum, William Strampel, var dæmdur í fangelsi fyrir vanrækslu í starfi vegna þess að hann fylgdi ekki reglum háskólans þegar skjólstæðingur Nassar kvartaði undan kynferðislegri snertingu árið 2014.