Fótbolti

Muller um hvort Lewandowski sé betri en Messi: „Við munum sjá það á föstu­daginn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Robert Lewandowski fagnar í kvöld.
Robert Lewandowski fagnar í kvöld. vísir/getty

Thomas Muller, leikmaður Bayern Munchen, segir að samherji sinn, Robert Lewandowski, geti sýnt að hann sé betri en Lionel Messi þegar Bayern og Barcelona mætast á föstudagskvöldið.

Bæði lið tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi en þau mætast í Portúgal á föstudaginn.

Lewandowski hefur verið magnaður á leiktíðinni og skoraði m.a. tvö mörk í sigrinum á Chelsea í gær. Eftir leikinn var Muller spurður hvort að sá pólski væri betri en Messi.

Klippa: Bayern Munchen - Chelsea 4-1

„Við munum sjá það á föstudaginn. Lewy verður að svara þessari spurningu,“ sagði Muller eftir sigurinn í gær.

„Messi spilaði einnig vel í dag [í gær] en það snýst um okkur og Lewy að svara þessari spurningu Lewy í hag á föstudaginn.“

Hansi Flick, stjóri Bayern Munchen, er eðlilega himinlifandi að hafa pólska framherjann í sínum röðum.

„Það myndi ekki vera leiðinlegt ef hann myndi halda þessu áfram. Hann sýndi aftur í dag hversu mikilvægur hann er fyrir okkur.“

„Hann skoraði ekki bara tvö mörk heldur lagði einnig upp tvö mörk. Við erum ánægðir að hafa hann í okkar liði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×