Erlent

Bjargaði manni í hjólastól frá því að verða fyrir lest

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjólastóll lmannsins festist á teinunum.
Hjólastóll lmannsins festist á teinunum.

Þegar lögreglukonan Erika Urrea var á ferðinni í Lodi í Kaliforníu í gær sá hún mann í hjólastól sitja á lestarteinum. Hann hafði verið að fara yfir teinana og eitt hjól hans festist þar. Með snöggum viðbrögðum tókst Urrea naumlega að bjarga manninum, sem er 66 ára gamall, frá því að verða fyrir lestinni.

Myndband úr vestismyndavél Urrea sýnir að hún reyndi að losa stólinn en án árangurs. Þá dró hún manninn, sem hefur ekki verið nafngreindur, úr stólnum, rétt áður en lestin fór á stólinn og annan fót mannsins.

Frá því Urrea steig úr bílnum og að lestin keyrði fram hjá, liður fimmtán sekúndur.

Í frétt Sacramento Bee segir að maðurinn hafi slasast á fætinum en hann var fluttur á sjúkrahús og er búist við að hann muni jafna sig.

Miðillinn segir einnig að samkvæmt opinberum tölum deyi eða slasist mikill fjöldi Kaliforníubúa vegna lesta á ári. Um fimmtungur slíkra slysa í Bandaríkjunum eigi sér stað í ríkinu á ári hverju. Í fyrra dó 141 og 95 slösuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×