Handbolti

Meðalaldurinn þremur árum hærri en á HM í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn fertugi Guðjón Valur Sigurðsson er aldursforseti íslenska EM-hópsins.
Hinn fertugi Guðjón Valur Sigurðsson er aldursforseti íslenska EM-hópsins. vísir/getty

Meðalaldur leikmanna í íslenska hópnum sem fer á EM 2020 í handbolta er 27,5 ár.

Meðalaldur EM-hópsins er þremur árum hærri en meðalaldur íslenska hópsins sem fór á HM í Þýskalandi og Danmörku í fyrra. Þá var hann aðeins 24,5 ár.

Á HM voru aðeins tveir af 17 í íslenska hópnum yfir þrítugt; Björgvin Páll Gústavsson og Arnór Þór Gunnarsson. Sá fyrrnefndi var aldursforseti HM-hópsins, 33 ára.

Í EM-hópnum eru fimm leikmenn yfir þrítugt. Einn er meira að segja á fimmtugsaldri. Björgvin Páll og Arnór Þór eru á sínum stað og auk þeirra eru Guðjón Valur Sigurðsson, Alexander Petersson og Kári Kristján Kristjánsson komnir yfir þrítugt.

Hinn fertugi Guðjón Valur missti af HM í fyrra vegna meiðsla en fer með á EM. Það er hans 22. stórmót á ferlinum.

Alexander, sem er 39 ára, kemur einnig inn í landsliðið eftir fjögurra ára hlé og þá var Kári, sem er 35 ára, var einnig valinn í EM-hópinn. Þeir, ásamt Guðjóni Val, hífa meðalaldurinn hressilega upp.

Í EM-hópnum eru tveir leikmenn sem eru fæddir á þessari öld; Viktor Gísli Hallgrímsson, sem er 19 ára, og hinn 18 ára Haukur Þrastarson sem er á leið á sitt annað stórmót. Sá síðarnefndi er 22 árum yngri en Guðjón Valur.

Átta í EM-hópnum eru 25 ára og yngri; Viktor Gísli, Haukur, Ýmir Örn Gíslason, Arnar Freyr Arnarsson, Sigvaldi Guðjónsson, Elvar Örn Jónsson, Janus Daði Smárason og Sveinn Jóhannsson.

Íslenska liðið heldur út til Malmö á morgun og fyrsti leikur þess á EM er gegn heims- og Ólympíumeisturum Dana á laugardaginn.

Aldur íslenska EM-hópsins

Björgvin Páll Gústavsson - 34 ára

Kári Kristján Kristjánsson - 35 ára

Aron Pálmarsson - 29 ára

Bjarki Már Elísson - 29 ára

Guðjón Valur Sigurðsson - 40 ára

Ýmir Örn Gíslason - 22 ára

Ólafur Guðmundsson - 29 ára

Alexander Petersson - 39 ára

Viktor Gísli Hallgrímsson - 19 ára

Arnór Þór Gunnarsson - 32 ára

Arnar Freyr Arnarsson - 23 ára

Sigvaldi Guðjónsson - 25 ára

Haukur Þrastarson - 18 ára

Elvar Örn Jónsson - 22 ára

Viggó Kristjánsson - 26 ára

Sveinn Jóhannsson - 20 ára

Janus Daði Smárason - 25 ára

Meðalaldur: 27,5 ár

Miðað er við aldur daginn sem EM-hópurinn var valinn, 7. janúar.


Tengdar fréttir

Svona var blaðamannafundur Guðmundar

Vísir var með beina útsendingu frá blaðamannafundi HSÍ þar sem Guðmundur Guðmundsson tilkynnti leikmannahóp sinn fyrir EM í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×