Innlent

Til­kynnt um hugsan­lega sprengju á leik­skóla­lóð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan var kölluð til vegna hugsanlegrar sprengju á leikskóla í Breiðholti.
Lögreglan var kölluð til vegna hugsanlegrar sprengju á leikskóla í Breiðholti. Vísir/Vilhelm

Leikskólastjóri á leikskóla í Breiðholti tilkynnti lögreglu um hugsanlega sprengju með kveikiþræði á lóð leikskólans um klukkan hálftvö í dag.

Að því er fram kemur í dagbók lögreglu var um að ræða pappahólk, líklega innan úr skottertu eða flugeld, sem var búið að líma saman með límbandi. Sá sérsveit ríkislögreglustjóra um að fjarlægja hlutinn og eyða honum en ekki er vitað hver kom þessu fyrir á lóðinni.

Þá barst tilkynning um íþróttaslys í Garðabæ klukkan 15:18. Tíu ára stúlka var við fimleikaæfingar þegar hún slasaðist með þeim afleiðingum að hún líklega handleggsbrotnaði á báðum handleggjum. Var stúlkan flutt með sjúkrabíl á slysadeild.

Á þriðja tímanum óskaði starfsfólk verslunar í Hafnarfirði eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem var að reyna að borga fyrir vörur með fölsuðum peningaseðli. Seðillinn var haldlagður en við skýrslutöku á vettvangi neitaði sakborningur öllum sakargiftum.

Skömmu fyrir klukkan tvö óskuðu erlendir ferðamenn eftir aðstoð þar sem þeir höfðu fest bílaleigubíl í snjó á Nesjavallaleið.

Vegurinn var merktur ófær en ferðamennirnir sögðust ekki hafa tekið eftir skiltinu. Lögreglumenn á jeppa sóttu ferðamennina og fluttu í bæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×