Yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi segist merkja aukna áfengisneyslu í kórónuveirufaraldrinum. Fólk stundi meiri dagdrykkju en áður og komi veikara inn á Vog. Þar að auki sé fólk farið að drekka spritt til að viðhalda vímunni.
Þetta segir Víðir Sigrúnarson yfirlæknir í samtali við Fréttablaðið í umfjöllun þess um aukna áfengissölu í kórónuveirufaraldrinum, samanborið við fyrri ár. Vísir hefur jafnframt fjallað um aukna sölu á sígarettum og vindlingum meðan farsóttin hefur geisað.
Víðir telur að aukin heimavera fólks, í sóttkví eða heimavinnu, hafi fækkað hindrunum í vegi þess að fá sér áfengi. Fólk hafi því drukkið meira, jafnvel frá morgni til kvölds, og fyrir vikið hafi það leitað fársjúkt á Vog. Áhrifin á taugakerfið séu fyrir vikið meiri, auk þess sem fráhvörfin séu hættulegri.
Þá segir Víðir brögð að því að fólk sé farið að leggja sér spritt til munns. Í því er yfirleitt rúmlega 80 prósent áfengismagn en reynt er að gera það ódrykkjarhæft, ýmist með bragð- eða sápuefnum, sem ætlað er að valda ógleði. Fólk sem drekki spritt hljóti sömu meðferð og aðrir alkahólistar.
Í umfjöllun blaðsins er jafnframt rætt við sérfræðing í klínískum eitrunarfræðum við Landspítalann sem segir etanólmagnið í spritti auka líkur á meðvitundarleysi og uppköstum í lungu. „Þetta er mjög sterkt áfengi og margir taka ekki eftir því hvað þetta er sterkt,“ segir Curtis P. Snook.