Fótbolti

Van Dijk vill fagna titlinum með stuðningsmönnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Van Dijk (fyrir miðju) vill fagna með stuðningsmönnum þegar Liverpool vinnur ensku úrvalsdeildina.
Van Dijk (fyrir miðju) vill fagna með stuðningsmönnum þegar Liverpool vinnur ensku úrvalsdeildina. Alex Pantling/Getty Images

Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, hefur lofað því að mæta með Englandsmeistaratitilinn til stuðningsmanna félagsins þrátt fyrir að enn sé óljóst hvenær og hvernig ensku úrvalsdeildinni mun ljúka.

Hollenski miðvörðurinn hefur sagt að hann og liðsfélagar sínir væru miður sín ef stuðningsmenn félagsins gætu ekki séð liðið fagna fyrsta deildartitlifélagsins í 30 ár.

Van Dijk greindi frá þessu í viðtali við BBC.

Liverpool er sem stendur með 25 stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni en öllum leikjum hennar hefur verið til allavega 3. apríl. Hvað gerist eftir það er alls óljóst.

„Enginn vill spila án stuðningsmanna. Ef við myndum vinna titilinn á tómum leikvangi og það væri engir áhorfendur þar yrði ég miður mín,“ sagði miðvörðurinn knái um möguleika þess að klára ensku úrvalsdeildina án áhorfenda.

„Þegar það gerist þá erum við að fara með titilinn til stuðningsmanna okkar.“ 

Það er varla hægt að kalla hann kokhraustan þar sem það er almenn vitneskja að Liverpool muni landa titlinum en að fagna honum þegar mögulegt samkomubann er á verður að teljast frekar glæfraleg ákvörðun.

Hins vegar eru 30 ár síðan Liverpool vann síðast deildartitil og ljóst að borgin mun fagna, sama hvort það verði samkomubann eður ei.

Þetta er þó á skjön við það sem Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, hefur predikað en hann hvatti á föstudag alla stuðningsmenn félagsins til að hugsa vel um hvorn annan ásamt því að segja að „fótboltaleikir eru einfaldlega ekki það mikilvægir.“

Mikið hefur verið rætt og ritað um hvað gerist í deildum Evrópu en óvíst er hvenær hægt er að hefja leik á ný. Þá er Evrópumótið 2020 handan við hornið og ljóst að tíminn er naumur ef enska úrvalsdeildin ætlar sér að klára þær níu umferðir sem eftir eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×