Erlent

Banda­ríkja­stjórn felli niður refsi­að­gerðir gegn Al­þjóða­saka­mála­dóm­stólnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fatou Bensouda, saksóknari hjá Alþjóðasakamáladómstólnum í Haag, er annar starfsmanna hans sem Bandaríkjastjórn beitir nú refsiaðgerðum.
Fatou Bensouda, saksóknari hjá Alþjóðasakamáladómstólnum í Haag, er annar starfsmanna hans sem Bandaríkjastjórn beitir nú refsiaðgerðum. Vísir/EPA

Evrópusambandið hvatti Bandaríkjastjórn í dag til þess að fella niður refsiaðgerðir sem hún hefur lagt á starfsmenn Alþjóðasakamáladómstólsins. Aðgerðir Bandaríkjamanna séu óásættanlegar og fordæmalausar.

Stjórnvöld í Washington tilkynntu í gær að þau hefðu lagt refsiaðgerðir á Fatou Bensouda, saksóknara hjá Alþjóðasakamáladómstólnum (ICC), og Phakiso Mochochoko, sviðsstjóra hjá dómstólnum. Aðgerðirnar byggja á tilskipun Donalds Trump forseta frá því í júní um efnahagsþvinganir og takmarkanir á vegabréfaáritunum fyrir starfsmenn dómstólsins sem taka þátt í rannsókn á hvort bandarískir hermenn hafi framið stríðsglæpi í Afganistan. Slíkum aðgerðum er yfirleitt beitt gegn stríðsglæpamönnum, ekki starfsmönnum alþjóðastofnana.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, fordæmdi refsiaðgerðir Bandaríkjanna í dag. Þær séu tilraun til þess að leggja stein í götu dómstólsins og rannsókna á vegum hans, að því er segir í frétt Politico.

„ICC verður að fá að vinna sjálfstætt og af hlutleysi, laus við utanaðkomandi afskipti. Bandaríkin ættu að endurskoða afstöðu sína og draga til baka aðgerðirnar. Refsileysi má aldrei vera valmöguleiki,“ sagði Borrell í yfirlýsingu.

Bandaríkjastjórn á ekki aðild að dómstólnum og viðurkennir ekki lögsögu hans. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur jafnframt sakað dómstólinn um að standa í „hugmyndafræðilegri krossferð gegn bandarísku herliði“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×