Erlent

Trump kallar blaðamann óþokka og segir að reka ætti annan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti. Vísir/getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti beinir spjótum sínum nú að fréttamönnum eftir að hafa átt í vök að verjast undanfarna daga vegna meintra ummæla hans um fallna hermenn. Trump hefur í dag kallað fréttamanninn sem fyrst fjallaði um hin meintu ummæli „óþokka“ og lýst því yfir að reka eigi annan fréttamann sem fjallaði um málið.

Tímaritið The Atlantic var fyrst til að greina frá því að Trump hefði lýst bandarískum hermönnum sem féllu í fyrri heimsstyrjöldinni sem „minnipokamönnum“ og „flónum“ þegar hann var í opinberri heimsókn í Frakklandi í tilefni af því að öld var liðin frá stríðslokum árið 2018. Ritstjóri tímaritsins hafði þetta eftir ónefndum einstaklingum sem stóðu Trump nærri.

Síðan þá hafa aðrir fjölmiðlar, þar á meðal Washington Post, New York Times, AP-fréttstofan og Fox-fréttastöðin staðfest frásögn The Atlantic að hluta eða öllu leyti. Deilt hefur verið hart á forsetann vegna hinna meintu ummæla, m.a. úr herbúðum Joe Biden, andstæðings Trumps í forsetakosningum í nóvember. 

Trump birti færslur um málið á Twitter-reikningi sínum í dag. Hann nafngreindi ekki Jeffrey Goldberg, ritstjóra The Atlantic sem fyrstur fjallaði um hin meintu ummæli forsetans, í tístum sínum en ljóst þykir að orðin beinist að honum. Trump hóf tíst sitt á því að hreykja sér af því að hafa endurreist Bandaríkjaher, sem Barack Obama og varaforseta hans, Joe Biden, hefðu gjöreyðilagt í stjórnartíð þeirra.

„En svo skáldar óþokkablaðamaður [e. slimeball reporter], ef til vill í samvinnu við óánægt fólk, svona hryllilega ásökun,“ skrifaði Trump.

Þá beindi Trump spjótum sínum einnig að Jennifer Griffin, fréttamanni Fox News. Stöðin hefur hingað til verið í sérstöku uppáhaldi hjá forsetanum. En hann reyndist ekki hrifinn af umfjöllun Griffin, sem kveðst hafa fengið það staðfest frá nafnlausum heimildarmönnum að Trump hafi látið falla ósæmileg ummæli um fallna hermenn. Umfjöllun hennar má sjá hér fyrir neðan.

„Það ætti að reka Jennifer Griffin fyrir svona blaðamennsku. Hringdi ekki einu sinni í okkur til að fá viðbrögð. Fox-fréttastofan er búin að vera!“ skrifaði Trump á Twitter í nótt.

Sjálfur hafnar Trump því alfarið að hafa látið nokkuð illt út úr sér um fallna hermenn.


Tengdar fréttir

Vara við „Rauðri hillingu“ á kjördag

Sérfræðingar eru byrjaðir að vara við því að niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember, gætu tekið miklum breytingum eftir kosninganóttina sjálfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×