Lítið stúlkubarn kom í heiminn í bílasal slökkviliðsstöðvarinnar í Skógarhlíð í gærkvöldi. Ljósmóðir hafði ráðlagt foreldrunum að koma þar við þegar þeir sáu ekki fram á að ná í tæka tíð á sjúkrahús.
Slökkviliðsmenn tóku á móti foreldrunum í bílasal slökkviliðsstöðvarinnar og aðstoðuðu móðurina úr bíl sínum og á sjúkrabörur, að því er segir í Facebook-færslu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Hlutirnir hafi gerst hratt þegar konunni var komið í sjúkrabíl. Tveimur mínútum síðar hafi myndarstúlka fæðst í sjúkrabílnum inni á stöðinni, á slaginu klukkan 20:00.
Móður og dóttur heilsast vel og var fjölskyldan flutt á fæðingardeild.