Skoðun

Ég vil fá að ráða mínum málum sjálfur

Guðbrandur Einarsson skrifar

Þegar fólk tekur lán til fasteignakaupa er að mörgu að hyggja. Fyrst og síðast er þó mikilvægt að greiðslubyrði sé löguð að þörfum og getu hvers og eins. Mikil umræða hefur átt sér stað um kosti og galla verðtryggingar og sitt sýnist hverjum. Margir hafa nú valið að taka frekar óverðtryggð lán en verðtryggð og ekkert nema gott um það að segja því það er þeirra val og mér finnst eðlilegt að einstaklingurinn hafi val.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við undirritun á svokölluðum Lífskjarasamningi er eftirfarandi texta að finna:

“Frá og með ársbyrjun 2020 verði óheimilt að veita verðtryggð jafngreiðslulán til neytenda til lengri tíma en 25 ára nema með ákveðnum skilyrðum. Rökin fyrir þessu felast fyrst og fremst í þeim ókostum verðtryggðra jafngreiðslulána að verðbótum er bætt við höfuðstól lánsins og greiðslu þeirra frestað þannig að eignamyndun verður hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukast.”

Þessi texti er tilkominn vegna kröfu ákveðinna verkalýðsfrömuða sem greinilega vilja fækka möguleikum á lánamarkaði. Illu heilli var þetta síðan sett inn í lögin um hlutdeildaríbúiðir sem nýverið er búið að samþykkja.

Ég átta mig ekki á þeirri forsjárhyggju sem er þarna á gangi. Hvers vegna er verið vinna að því að skerða möguleika fólks til lántöku?

Það eru ekki allir sem ráða við að taka styttri lán. Afborgun af 25 ára láni er 60% hærri en af 40 ára láni og það eru heldur ekki allir sem vilja né geta lifað við þann óstöðugleika sem getur fylgt óverðtryggðum lánum.

Hækkun á vöxtum úr 2% í 3% er sakleysisleg á pappír en þýðir 50% hækkun á vöxtum. Það er hætt við að margir hefðu rúllað þráðbeint á hausinn í hruninu þegar að óverðtryggðir vextir fóru yfir 20%.

Að tala um að eignamyndun verði hægari með verðtryggðu láni er sérstakt, því það er auðvitað bara á ábyrgð hvers og eins. Það er alltaf hægt að greiða meira inn á verðtryggð lán en sem nemur afborgun hverju sinni.

Sem betur fer hefur ríkisstjórn Íslands ekki látið verða af þessu og vonandi gerir hún það ekki. Í íslensku efnahagsumhverfi eins óstöðugt og það nú er, tek ég verðtryggt lán eins langt og ég tel mér henta og finnst óeðlilegt að verkalýðsforkólfar hafi eitthvað með það að gera.

Ég vil fá að ráða mínum málum sjálfur.

Höfundur er oddviti Beinar leiðar og forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.




Skoðun

Sjá meira


×