Innlent

Sneru aftur í land eftir að meirihluti áhafnar reyndist smitaður

Sylvía Hall skrifar
Skipið sneri aftur í land eftir að ljóst var að meirihluti áhafnar væri smitaður af veirunni. Hér má sjá ferðalag þess frá höfn og til baka.
Skipið sneri aftur í land eftir að ljóst var að meirihluti áhafnar væri smitaður af veirunni. Hér má sjá ferðalag þess frá höfn og til baka. MArine traffic

Meirihluti áhafnar frystiskipsins Júlíusar Geirmundssonar ÍS-270 hefur greinst með kórónuveirusmit. Áhafnarmeðlimir voru skimaðir í gærkvöldi eftir að skipið kom til hafnar á Ísafirði til olíutöku vegna flensueinkenna.

Veiðiferð skipsins hafði staðið yfir í þrjár vikur þegar það kom að landi í gær og fór sýnatakan fram í skipinu. Heilbrigðsstarfsmenn fóru um borð til þess að taka sýni en enginn úr áhöfninni fór í land. Samkvæmt upplýsingum á vef Hraðfrystihússins Gunnvarar er 25 manna áhöfn um borð.

Niðurstöður úr sýnatökunni lágu svo fyrir í kvöld.

„Þegar þær lágu fyrir var veiðum þegar hætt og skipinu snúið til hafnar og er það væntanlegt til Ísafjarðar á morgun,“ segir í tilkynningu.

Enginn um borð virðist vera alvarlega veikur samkvæmt upplýsingum frá útgerðinni. Útgerðin mun ákveða næstu skref í fullu samráði við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum að því er fram kemur í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×