Innlent

Forstjóri SAk á von á fleiri innlögnum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Forstjórinn segir tölfræðina gefa til kynna að fleiri þurfi að leggjast inn á sjúkrahúsið á næstu dögum.
Forstjórinn segir tölfræðina gefa til kynna að fleiri þurfi að leggjast inn á sjúkrahúsið á næstu dögum. Vísir/Vilhelm

Fjórir liggja nú inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna Covid-19. Forstjóri sjúkrahússins á von á fleiri innlögnum næstu daga í ljósi fjölgunar smita á Norðurlandi eystra. Hann biðlar til bæjarbúa að viðhafa sóttvarnir og fara að reglum.

Nú eru 95 í einangrun vegna kórónuveirusýkingar á Norðurlandi eystra og 574 eru í sóttkví. Ástandið hefur versnað mjög á síðustu tveimur vikum eða svo.

Bjarni Smári Jónasson er forstjóri Sjúkrahússins á AkureyriSjúkrahúsið á Akureyri

Bjarni Smári Jónasson er forstjóri sjúkrahússins á Akureyri.

„Eins og staðan er núna þá liggja hjá okkur fjórir einstaklingar og þeir eru á almennri deild og enginn er á gjörgæslu. Þeim heilsast eftir atvikum.“

Hann segir að tölfræðin sýni að fleiri muni þurfi á innlögn að halda á næstu dögum eða vikum.

„Hún segir okkur að við getum átt von á að fleiri komi til með að þurfa að leggjast inn hjá okkur á næstu dögum en hvað verður, verður tíminn að leiða í ljós.“

Bjarni var spurður hvað spítalinn getur tekið á móti mörgum Covid-19 sjúklingum.

„Við getum tekið við allt upp í 24-34 einstaklinga eftir því hversu umfangið verður mikið en með góðu móti getum við sinnt á bilinu átta til fimmtán einstaklingum en ef þarf að leggja fleiri sjúklinga inn þá kallar það á meiri aðgerðir en það er hægt.“

Bjarni biðlar til bæjarbúa að huga vel að persónulegum sóttvörnum og fara að sóttvarnareglum.

„Þannig tryggjum við best að við komumst í gegnum þetta tímabil eins áfallalítið og unnt er.“


Tengdar fréttir

Smitum fjölgar áfram á Akureyri og Dalvík

79 manns eru nú í einangrun á Norðurlandi eystra, flestir á Akureyri en smitum hefur fjölgað á Dalvík. Hermann Karlsson aðalvarðstjóri í aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra segir þessa þróun ekki þurfa að koma á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×