Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, segir hagræðingaraðgerðirnar sem gripið hefur verið til á fréttastofunni vera vegna niðurskurðar. Þess mesta sem fréttastofan hafi staðið frammi fyrir síðan árið 2013. Með breytingunum sparist hátt í 100 milljónir króna.
„Eins og staðan er núna stefnir hann hátt í tíu prósent og því ógerlegt annað er fækka í starfsliði fréttastofunnar,“ segir Rakel í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis.
Þremur fastráðnum fréttamönnum Ríkisútvarpsins hefur verið sagt upp störfum. Rakel segir fréttastofuna aftur á móti vera að missa í heildina sex stöðugildi fréttamanna milli ára.
„Hin þrjú stöðugildin eru m.a. vegna fækkunar umsjónarmanna í fréttaþáttum auk þess sem nokkrir af reynslumestu fréttamönnum okkar fara í skert starfshlutfall eða láta af störfum þegar þeir ná lífeyrisaldri.“
Heildarskerðingin á fjármagni fréttastofunnar núna jafngildi um níu stöðugildum. Hagrætt sé og skorið niður á öllum póstum í fréttavinnslunni og rekstrinum.
Aðspurð hve miklir fjármunir sparist á ársgrundvelli með þessum niðurskurði áætlar Rakel það vera um 90-100 milljónir sé allt talið saman eins og staðan er núna.
Ekki sé gert ráð fyrir frekari fækkun starfsmanna á fréttastofunni á þessu ári. Aðspurð hvort frekari hagræðingar séu í gangi hjá Ríkisútvarpinu vísaði Rakel á Stefán Eiríksson útvarpsstjóra.

Hagræðing, samdráttur og fækkun
Stefán segir í svari við skriflegri fyrirspurn Vísis á fjórða tímanum að Ríkisútvarpið standi nú frammi fyrir miklu tekjufalli vegna samdráttar í auglýsingatekjum, auk þess sem „tekjuáætlun fjárlaga gerir ráð fyrir lakari innheimtu á útvarpsgjaldi á næsta ári sem nemur mörg hundruð milljónum króna.“
Af þessum ástæðum hafi verið gripið til margvíslegra hagræðingaraðgerða hjá Ríkisútvarpinu undanfarnar vikur og mánuði á öllum sviðum.
Breytingarnar feli til dæmis í sér tilfærslu á starfsfólki, samdrátt og hagræðingu í stoðdeildum, fækkun í yfirstjórn, auk þess sem svið hafi verið sameinuð og lögð niður. Einnig hafi starfshlutfall starfsmanna verið lækkað með því að ráða ekki í stöður sem losna, sem og með því að segja fólki upp störfum.
Fréttin hefur verið uppfærð með svari útvarpsstjóra við fyrirspurn Vísis.