Ekki er von á tilslökunum í aðgerðum stjórnvalda en sú reglugerð sem er í gildi rennur út í lok dags á morgun. Sóttvarnalæknir hefur skilað nýjum tillögum til heilbrigðisráðherra sem mun væntanlega tilkynna í dag eða á morgun hvernig fyrirkomulagið verður frá og með 2. desember.
Björn Leifsson segir í samtali við Mbl.is að hann hafi ákveðið að bíða með frekari uppsagnir í þeirri von að faraldurinn verði senn á enda. Jákvæð teikn eru á lofti hvað varðar bóluefni þótt enn sé óvíst hvenær það kemur til landsins. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði á upplýsingafundinum í dag að bólusetning færi hratt fram hér á landi þegar efnið kæmi til landsins.
Björn sagði í viðtali við Vísi fyrir helgi að hann hefði þurft að segja um fjörutíu starfsmönnum upp í haust en þeir voru með viku uppsagnarfrest. Honum teldist til að hann hefði orðið af 1,2 milljörðum króna vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hefði nýlega tekið eins milljarðs króna lán vegna rekstursins.