Leiðtogar Breta og ESB funda saman í Brussel í kvöld í von um að klára málið á lokametrunum. Miðað við ummæli undanfarinna daga eru leiðtogarnir vongóðir en ekkert sérstaklega bjartsýnir.
Þannig sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari að enn væri möguleiki á því að ná samningi þótt hún gæti engu slíku lofað.
Breski forsætisráðherrann Boris Johnson tók í sama streng og sagði að þótt menn yrðu að vera jákvæðir væri staðan afskaplega erfið.
Hvað breytist um áramótin?
Frá og með 1. janúar mun EES-samningurinn ekki gilda lengur um Bretland og þýðir þetta þó nokkrar breytingar fyrir Íslendinga. Samkvæmt utanríkisráðuneytinu eru það einna helst þessi atriði sem er vert að hafa í huga:
Íslendingar sem flytja til Bretlands þurfa að sækja um dvalarleyfi og uppfylla skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi
Reglur EES-samningsins um gagnkvæma viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi gilda ekki lengur
Ekki verður lengur sjálfkrafa viðurkenning á að vörur uppfylli tæknilegar reglur og staðla
Evrópska sjúkratryggingakortið gildir ekki lengur og þurfa þeir sem fara til Bretlands að huga að viðeigandi tryggingum
Hvað breytist ekki?
Sumt breytist þó ekki, meðal annars vegna bráðabirgðafríverslunarsamningsins sem Ísland, og Bretland undirrituðu í gær.
Íslendingar búsettir í Bretlandi fyrir lok árs 2020 halda dvalar- og búseturéttindum sínum en verða að sækja um svokallaðan „settled status“.
Áfram verður hægt að heimsækja Bretland án vegabréfsáritunar.
Óbreytt tollkjör verða í vöruviðskiptum vegna bráðabirgðafríverslunarsamnings.
Réttindi þeirra sem hafa fengið prófskírteini frá Bretlandi viðurkennd fyrir lok aðlögunartímabilsins, eða umsókn um slíkt lögð fram fyrir lok aðlögunartímabilsins, hafa verið tryggð.