Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar staðfestir í samtali við Vísi að einn smitaðra íbúa úrræðisins, sem er fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sé nemandi á grunnskólaaldri. Bekkjarfélagar hans hafi verið settir í sóttkví, auk tveggja kennara. Enginn þeirra hafi greinst með veiruna.
Árdís segir að gengið hafi vel hjá Hafnarfjarðarbæ að bregðast við klasasmitinu. Unnið sé eftir ákveðnum viðbragðsáætlunum og verklagi. Hún veit ekki til þess að neinn starfsmaður bæjarins hafi þurft að sæta sóttkví í tengslum við klasasmitið.
Kristinn Guðlaugsson skólastjóri Hvaleyrarskóla staðfestir í samtali við Vísi að nemandi við skólann hafi greinst með veiruna um miðja viku og sextán bekkjarfélagar, auk tveggja kennara, séu í sóttkví. Hann getur ekki staðfest hvort nemandinn tengist klasasmitinu í búsetuúrræðinu.
Þetta er í fyrsta sinn sem einhver greinist með veiruna í skólanum síðan faraldurinn hófst, að sögn Kristins. Hann segir skólastarfið að öðru leyti ganga sinn vanagang.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum sagði í samtali við fréttastofu í morgun að alls væru átta smitaðir í tengslum við hópsmitið, þar af greindust sex í gær. Hann sagði að uppruni smitsins væri þekktur en hafði ekki frekari upplýsingar um smitrakningu.