Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, baðst í dag afsökunar á því að hafa verið viðstaddur, ásamt eiginkonu sinni, fjölmennu samkvæmi í gærkvöldi. Samkoman var leyst upp af lögreglu sem tilkynnti í morgun að ráðherra hafi verið viðstaddur 40-50 manna samkvæmi í miðborg Reykjavíkur.
„Þetta er mjög alvarlegt. Þetta ber upp fyrir dag sem flestir Íslendingar álíta helgasta dag ársins og í þeim skilningi líka að þá hittast gjarnan fjölskyldur, ástvinir og ættingjar,“ segir Logi í samtali við fréttastofu.
„Ríkisstjórnin hefur sett mjög takmarkandi en nauðsynlegar reglur sem rýra mjög lífsgæði fólks og möguleika þess til að hitta jafnvel afa sína og ömmur, pabba, mömmur og systkini. Það eru auðvitað bara mjög vond skilaboð að fulltrúar stjórnvalda sem að setja þessar reglur treysti sér ekki til að fara eftir þeim sjálfir,“ segir Logi.
Telur Bjarna þurfa að íhuga stöðu sína alvarlega
Logi bendir á að Bjarni sé einn af þremur oddvitum ríkisstjórnarinnar sem setti það í stjórnarsáttmála að markmið ríkisstjórnarinnar væri að efla traust hjá almenningi á stjórnvöldum.
„Ábyrgð hans er þess vegna mikil. Ég minni líka á að 30. október þá setur hann inn færslu í kjölfar þess að ríkisstjórnin setur fram aðgerðir, viðspyrnustyrki fyrir atvinnulífið. Þar segir hann að við megum allt til vinna til að koma atvinnulífinu í gang og þá þurfi líka að horfa til þess að góður árangur í sóttvarnahlutanum sé lykilatriði,“ segir Logi.
„Hann biðlar til fólks að fara í einu og öllu eftir þessum tilmælum þótt þau séu erfið,“ segir Logi.
Hann telur að Bjarni þurfi að íhuga stöðu sína alvarlega.
„Ég tel að Bjarni hljóti að vera að íhuga stöðu sína og jafnvel afsögn. Ef að hann gerir það ekki þá er alveg augljóst að aðrir ráðherrar í ríkisstjórn stjórnarliðar þurfa að ræða sín á milli hvort að hann njóti fulls trausts og hvort að þau telji að samstarfið óbreytt geti hugsanlega ekki bara grafið undan viðhorfi almennings á þessum aðgerðum og þá orðið stórskaðlegt fyrir samfélagið,“ segir Logi.