Ragnar, sem er þrítugur, er uppalinn Selfyssingur og hóf ferilinn þar. Eftir að hafa orðið markakóngur efstu deildar tímabilið 2010-11 gekk Ragnar í raðir FH.
Hann lék með FH þar til í janúar 2015 er hann samdi við Hüttenberg í Þýskalandi. Þar lék Ragnar í fjögur ár áður en hann fór til Bergischer 2019.
Heimkoman er raunveruleg!
— Selfoss handbolti (@selfosshandb) December 28, 2020
Við bjóðum Ragga Jó velkominn heim <3#rj18 #selfosshandbolti #olisdeildin #mjaltavélin pic.twitter.com/e1irmnceVq
Ragnar, sem er örvhent skytta, styrkir lið Selfoss gríðarlega mikið. Selfyssingar voru í 4. sæti Olís-deildar karla með fimm stig þegar keppni var hætt í október vegna kórónuveirufaraldursins.
Samningur Ragnars við Bergischer átti að renna út í vor en samkomulag náðist um að rifta honum og hann getur því byrjað að spila með Selfossi þegar keppni í Olís-deildinni hefst á ný. Í fréttatilkynningu frá Selfossi kemur fram að dyggir stuðningsmenn hafi rétt fram hjálparhönd til að félagaskipti Ragnars yrðu að veruleika.
Ragnar var í fyrsta og eina sinn valinn í íslenska landsliðið vorið 2018 og lék þá með því á æfingamóti í Noregi.