Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók ölvaða konu við hótel í Hafnarfirði skömmu fyrir miðnætti.
Í dagbók lögreglu segir að konan hafi ekki viljað fara að fyrirmælum lögreglu og verið með hótanir. Var hún sökum ástands vistuð í fangageymslu lögreglu.
Einnig segir frá því að um 17:30 hafi verið tilkynnt um eld í áhaldageymslu við Ásvelli í Hafnarfirði. Reyndist eldurinn vera í loftpressu og var starfsmaður búinn að slökkva með handslökkvitæki þegar lögregla mætti á vettvang.
Þá segir frá því að um kvöldmatarleytið í gær hafi verið tilkynnt um umferðaróhapp við Ártúnshöfða þar sem ökumaður hafi svo stungið af. Var ekið á bíl og þegar tjónþoli hafi ætlað að ræða við þann sem var í órétti ók hann í burtu. „Vitni var að atvikinu og einnig náðist skráningarnúmer af bifreiðinni sem ekið var á brott. Málið í rannsókn, segir í dagbók lögreglu.