Lögreglu- og slökkviliðsmenn settu sig í nokkra hættu í nótt þegar þeir slökktu í gaskútum sem kveikt hafði verið í á fjórum stöðum á Selfossi og rétt utan bæjarins. Lögregla telur málið tengjast því að nokkuð hefur borið á því að gaskútum hafi verið stolið af gasgrillum íbúa á Selfossi.
Athygli er vakin á þessu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi þar sem segir að ljóst sé að veruleg hætta hafi skapast af þessu, þar sem töluverð sprengihætta geti myndast þegar kveikt er í gaskútum.
Í samtali við Vísi segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, að lögreglan veðji á að stuldurinn á gaskútunum og íkveikjurnar tengist, og að málið sé litið alvarlegum augum.
„Þetta er eitthvað sem við viljum ekki að viðgangist,“ segir Oddur en kveikt var í gaskútunum á opnum svæðum. Lögreglan, slökkvilið og gangandi vegfarandi komu að slökkvistörfum.
„Þeir sem að slökkvistarfi komu settu sig í töluverða hættu við það að nálgast kútana og þó eldarnir hafi verið kveiktir á berangri getur orðið gríðarlegt eldhaf þegar og ef kútur gefur sig,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar.
Biðlað er til allra þeirra sem kunni að hafa upplýsingar um málið að setja sig í samband við lögreglunna á Suðurlandi í síma 444-2000, í tölvupósti á sudurland@logreglan.is eða í gegnum Facebook.