Óvissan í íslenskum efnahagsmálum hefur ekki verið eins mikil í áratugi og enginn veit í raun hvenær henni lýkur og hverjar afleiðingarnar verða að fullu. Leiðtogar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna mæta í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttamanns í dag til að ræða aðgerðir og aðgerðaleysi.
Stjórnarandstaðan hefur stutt allar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til hingað til og gert sitt til að hratt verði brugðist við. Eðlilega hafa frumvörp tekið breytingum í meðförum Alþingis og þá oft ekki hvað síst fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar.

Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar ræða nauðsynlega samstöðu á þessum óvissutímum í Víglínunni en einnig þær hugmyndir sem þeir og flokkar þeirra segja ekki hafa verið tekið tillit til á undanförnum vikum.

Þá telja þeir báðir að ríkisstjórnin eigi að hafa frumkvæði að því að lýsa því yfir að stjórnvöld muni koma Icelandair til aðstoðar, enda allir sammála um að þetta eina íslenska flugfélag sem sinnir millilandaflugi til og frá landinu megi ekki fara á hausinn.
Víglínan er í opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 17:40 og birtist á sjónvarpshluta Vísis fljótlega eftir útsendingu.