Framarar hafa ekki bara verið að bæta við sig leikmönnum fyrir næstu handboltaleiktíð heldur er félagið nú búið að ganga frá ráðningu nýs þjálfarateymis hjá karlaliðinu.
Sebastian Alexandersson var í mars ráðinn sem þjálfari karlaliðsins til næstu þriggja ára. Hann tók við sem aðalþjálfari af Halldóri Jóhanni Sigfússyni. Í dag tilkynntu Framarar svo að Eyjamaðurinn Guðfinnur Kristmannsson hefði verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari liðsins. Guðfinnur mun einnig stýra ungmennaliði Fram í Grill 66 deildinni.
Guðfinnur er margreyndur. Sem leikmaður á hann að baki 22 A-landsleiki auk þess að spila sem atvinnumaður í Svíþjóð og með ÍBV og ÍR hér á landi. Hann þjálfaði lið Wasaiterna í efstu deild Svíþjóðar veturinn 2002-2003 og liði Gróttu í úrvalsdeildinni hér á landi veturinn 2011-2012. Þá hefur Guðfinnur verið aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni og ÍR.
Fram hefur verið að safna liði fyrir næstu leiktíð en félagið hefur tryggt sér tvo færeyska landsliðsmenn, þá Rógva Dal Christiansen og Vilhelm Poulsen, og einn af markahæstu leikmönnum Olís-deildarinnar í vetur, Breka Dagsson sem kom frá Fjölni.